Sagan
Sagan
Árið 2006 frétti Ingólfur Bruun að leggja ætti þriggja fasa rafmagnskapal í jörð frá Reynivöllum í Suðursveit að Skaftafelli. Hann ræddi málið við föður sinn Knút Bruun en hann rekur ferðaþjónustu á Hofi í Öræfum ásamt Önnu Sigríði Jóhannsdóttur. Þegar þau tóku við rekstri gistheimilsins árið 2001 kom það í hlut Ingólfs að sjá um netmál ferðaþjónustunnar en það fólst aðallega í því að koma á nothæfri internettenginu í gistiheimili Frosts og funa í Hofi. Þá komst hann að því að það eina sem var í boði var ISDN tenging en það var það skásta sem bauðst víðast hvar á landsbyggðinni.
Þegar Ingólfur frétti að leggja ætti rafmagnsstreng í jörðu á þessari leið þá sagði hann við Knút að nú skyldi hann drífa í að hafa samband við sveitarstjórnina og sjá til þess að lagður yrði ljósleiðarastrengur samhliða rafstrengnum enda algjört brjálæði að nýta ekki tækifærið. Knútur tók Ingólf á orðinu og hafði samband við sveitarstjórnarmenn á Hornafirði um málið. Til að gera langt mál stutt var sú ákvörðun tekin á síðustu stundu hjá Rarik að lagður yrði ljósleiðari meðfram rafmagnsstrengnum. Lagður var ljósleiðari með 24 þráðum alla leiðina. Hvort sem það var brölti feðganna að þakka að þetta var gert skiptir etv. ekki máli, aðalmálið var að þetta var gert.
Rafstrengurinn og ljósleiðarinn voru síðan lagðir í jörð seinni hluta árs 2006 og var verkinu lokið árið 2007. Þegar Ingólfur var á ferð í Öræfum haustið 2006 sá hann kefli með rafstrengnum sem beið þess að vera lagður í jörð en sá hins vegar engin kefli með ljósleiðara. Hann ályktaði því sem svo að menn hefðu sleppt því að leggja ljósleiðara meðfram rafstrengnum og varð að vonum svekktur og hafði orð á þessu við Knút. Ingolfur tók hins vegar gleði sína á ný sumarið 2007 þegar búið var að leggja rafstrenginn en þá sagði Knútur honum að eftir allt saman þá hefði verið lagður ljósleiðarastrengur samhliða rafstrengnum. Þetta voru góðar fréttir. Sumarið og haustið 2007 sá Ingólfur síðan ummerki þar sem rafstrengurinn var lagður og sá þá einnig staði þar sem ljósleiðarinn stóð upp úr jörðinni en það átti eftir að ganga frá honum og tengja. Þetta varð Ingólfi hvatning að spýta í lófa og láta hendur standa fram úr ermum við að nýta strenginn fyrir íbúa og fyrirtæki í Öræfum.
Fyrst þurfti að athuga hvort að íbúar hefðu yfirhöfuð áhuga á því að tengjast ljósleiðaranum. Til að kanna það var talið rétt að fá einhvern úr sveitinni til að kanna áhuga íbúanna. Ingólfur ræddi síðan í framhaldinnu við Örn Bergsson, bónda á Hofi. Það varð úr að Ingólfur skrifaði bréf sem sent var í nafni Arnar á alla íbúa í Öræfum þar sem óskað var eftir því að fólk léti hann vita ef áhugi væri fyrir hendi. Bréfið var dagsett 3. júní 2007. Í ljós kom að þó nokkur áhugi íbúa var á að tengjast ljósleiðara og átti sá áhugi eftir að aukast.
Leið nú og beið til ársins 2008. Laugardaginn 5. apríl 2008 var boðað til fundar fyrir Öræfinga í Hofgarði þar sem héldu framsögu feðgarnir Knútur og Ingólfur, Guðmundur Daníelsson, tæknirekstrarstjóri Fjarska og Kjartan Pétur Sigurðursson, rafeindatæknifræðingur og leiðsögumaður, góður vinur Ingólfs. Markmið fundarins var að útskýra fyrir Öræfingum hvaða kostir fælust í því að tengjast ljósleiðara og reyna jafnframt að útskýra gagnaflutninga um ljósleiðara. Á fundinum var m.a. spilað myndband sem Gagnaveita Reykjavíkur lét útbúa um kosti ljósleiðarans umfram tengingar um koparlínur.
Stofnun Fjarskiptafélags Öræfinga, FÖ, þann 15. júní 2008 var mikilvægt skref í átt að takmarkinu. Um var að ræða áhugamannafélag og var tilgangur þess tíundaður í 3. grein samþykkta félagsins:
„Tilgangur félagsins er að stuðla að bættum fjarskiptum í Öræfasveit m.a. með því að beita sér fyrir aðgangi allra heimila og fyrirtækja í Öræfasveit að ljósleiðara sem Rarik hefur lagt frá Reynivöllum í Suðursveit að Skaftafelli í Öræfasveit. Ennfremur með því að gera áætlanir um tengingu við ljósleiðarann inná öll heimili og fyrirtæki í sveitinni og beita sér fyrir framkvæmdum í því sambandi. Þá skal félagið einnig semja við fjarskiptafyrirtæki um aðgang að hvers konar efni og nauðsynlegum tengingum.“
Knútur taldi mikilvægt að allir íbúar og öll fyrirtæki í Öræfum væru meðlimir í Fjarskiptafélaginu því það myndi styrkja stöðu feðganna í samningaviðræðum vegna ljósleiðarkerfis ef baklandið þeirra væri sterkt. Svo fór að allir íbúar og fyrirtæki í Öræfum gerðust meðlimir í FÖ. Einnig bættust við íbúar og fyrirtæki í Hala í Suðursveit en það eru aðeins 2.5 km frá Reynivöllum að Hala og því kjörið að bæta Halatorfunni við.
Knútur taldi mikilvægt að sveitarfélagið Hornafjörður yrði meðlimur i FÖ. Það myndi tvímælalaust auka slagkraft FÖ í samingviðræðum við bæði Fjarska og eins Rarik. Hann var í sambandi við bæjarstjóra Hornafjarðar, Hjalta Þór Vignisson, vegna þessa erindis. Knútur sendi síðan sveitarfélaginu bréf, dagsett 16. júní 2008 þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið yrði meðlimur í FÖ. Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Hornarfjarðar þann 23. júní 2008. Það kom á óvart að einn meðlimur bæjarráðs sat hjá við afgreiðslu þessa sjálfsagða framfaramáls.
Eftir að Ingólfur frétti að lagður hefði verið ljósleiðarastrengur með rafstreng Rarik spurðist hann fyrir um strenginn og hver færi með forræði hans. Í ljós kom að Fjarski, fjarskiptafélag Landsvirkjunar, hafði verið Rarik innan handar með tæknilega ráðgjöf þegar strengurinn var lagður. Ingólfi skildist að Fjarski væri með forræði strengsins á sinni könnu. Hann hafði því samband við Fjarska og ræddi þar við þáverandi framkvæmdastjóra, Njörð Tómasson. Knútur og Ingólfur fórum síðan á fund með Nirði þar sem málin voru rædd. Í ljós kom Fjarski var ekki með yfirráð yfir strengnum heldur eigandi hans, Rarik. Að sögn Njarðar var áhugi á því af hálfu Fjarska að yfirtaka strenginn og lýsti hann áhuga á að sett yrði upp ljósleiðarakerfi fyrir íbúa í Öræfum. Það væri þó skilyrði að samningar tækjust á milli Fjarska og Rarik um yfirtöku Fjarska á strengnum.
Veturinn 2007 til 2008 voru Ingólfur og Knútur í reglulegu sambandi við Njörð vegna málsins. Eftir að nokkur tími var liðinn af árinu 2008 án þess að samningar tækjust á milli Fjarska og Rarik urðu þeir ásáttir um að freista þess sjálfir að hafa samband við Rarik og óska eftir leigu á 2 af 24 þráðum ljósleiðarans. Ef það tækist væri stórum áfanga náð á þeirri leið að ljósleiðaravæða Öræfin.
Knútur og Ingólfur höfðu samband við Rarik og fengu fund með forstjóranum, Tryggva Þór Haraldssyni þann 17. apríl 2008. Nú fór í hönd erfiðasti hluti undirbúnings ljósleiðarakerfisins en það var að ganga frá samningum um 2 af 24 þráðum ljósleiðarastrengs Rarik. Á sama tíma áttu þeir eftir að kynnast því hvílkur frumskógur laga- og regluverk fjarskipta og samkeppni getur verið. Það sem gerði þá bjartsýna og hélt þeim gangandi í þessum hluta verkefnisins var hlýtt viðmót og jákvæð afstaða Tryggva Þórs sem sýndi verkefninu mikinn og jákvæðan áhuga frá fyrstu tíð. Hins var voru hendur hans bundnar í að ganga þegar í stað til samninga um leigu á umræddum tveimur þráðum. Lögfræðingur Rarik á þessum tíma, Lárus Blöndal hrl, var heldur svartsýnn á að Rarik væri heimilt að leigja FÖ tvo þræði í ljósleiðarastrengnum. Þar kæmu til álita útboðsskylda Rarik og einnig samkeppnissjónarmið en Lárus var á þessum tíma í Úrskurðarnefnd um samkeppnismál þannig að búast mátti við að hann hefði nokkuð góða hugmynd um hvað hann væri að tala.
Til að fylgja málinu eftir og setja fram sjónarmið FÖ þá óskuðu Ingólfur og Knútur eftir fundi með Lárusi. Niðurstaðan af þeim fundi var sú að Lárus sá ýmis tormerki á því að Rarik gæti leigt FÖ þræði í ljósleiðarastrengnum. Málið snérist m.a. um hvort Rarik væri skylt að bjóða allan strenginn út eða hvort hægt væri að bjóða út hluta hans.
Nú vantaði lögfræðilegt álit um þetta efni. Eftir að hafa grúskað aðeins á netinu og lesið sér til til þá datt Ingólfur niður á nafn Trausta Fannars Valssonar, lektors við Lagadeild HÍ. Það kom til af því að hann rakst á grein sem Trausti Fannar hafði skrifað um útboðsskyldu sveitarfélaga. Ingólfur og Knútur leituðu til Trausta Fannars sem tók þeim vel. Hann samþykkti að aðstoða þá og skrifaði greinargerð dagsetta 6. október 2008 þar sem fjallað var ítarlega um þau álitaefni sem Rarik stóð frammi fyrir gagnvart beiðni FÖ um leigu á tveimur ljósleiðaraþráðum. Í lok greinargerðinnar bendir Trausti á leiðir fyrir Rarik til að semja við FÖ og einnig hvað beri að varast til að hindra samkeppni. Umrædda greinargerð afhenti Trausti Fannar FÖ endurgjaldslaust og var það höfðinglega gert. Þarna sannaðist í eitt af mörgum skiptum á langri leið að takmarkinu að verkefnið naut velvildar og skilnings hjá flestum þeim sem þeir höfðu samskipti við.
Eftir að lögfræðiálit Trausta Fannars var afhent Tryggva Þór hjá Rarik fór að komast skriður á viðræður FÖ og Rarik. Loks var skrifað undir samning við Rarik þann 7. október 2009 um leigu FÖ á einu pari af ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Rarik. Áður en skrifað var undir samning við Rarik þá hafði Tryggvi Þór tjáð feðgunum að miklar líkur væru á að FÖ fengi umrædda ljósleiðaraþræði leigða. Þó eitt ár hefði liðið frá því að við fengu skýrslu Trausta Fannars í hendur og þar til skrifað var undir samning við Rarik þá var tíminn nýttur vel til að skoða hvaða gerð af ljósleiðarastreng ætti að nota í heimtaugar og eins hvaða endabúnað ætti að nota.
Á árinu 2008 áttu Knútur og Ingólfur fundi með Nirði Tómassyni, þáverandi framkvæmdastjóra Fjarska og Guðmundi Daníelssyni, tækirekstrarstjóra Fjarska. Á þessum fundum var m.a. rætt um hvernig uppbyggingu væntanlegs ljósleiðarakerfis skyldi háttað. Á fyrstu fundum sem snérust um tæknihlið tilvonandi kerfis var með feðgunum vinur Ingólfs, Kjartan Pétur Sigurðsson, rafeindatæknifræðingur og leiðsögumaður, til halds og trausts. Það var ómetanlegt að hafa hann sem ráðgjafa þegar fyrstu viðræður um tæknileg málefni áttu sér stað. Kjartan benti Ingólfi t.d. á það væri óskynsamlegt að byggja upp kerfi sem styddi 100 Mbits heldur skyldi við stefnt á kerfi sem væri 1000 Mbits eða 1 gigbit. Og fleiri góð ráð og útskýringar kom Kjartan með sem nýttust Ingólfi vel þegar kom að viðræðum við starfsmenn Fjarska um tæknileg mál.
Fjarskamenn höfðu komið að svipuðu verkefni í Blöndudal í Húnavatnssýlu á árinu 2008. Þar hafði verið komið á ljósleiðarakerfi sem réði við 100 Mbits flutningshraða. Í því verkefni var notast við endabúnað frá Taiwanska fyrirtækinu Moxa. Umrætt kerfi var þó aðeins notað fyrir internettengingu, ekki fyrir sjónvarp og síma. Upphafleg hugmynd Fjarska gerði ráð fyrir að sama tækni yrði notuð í Öræfum. Því var Ingólfur hins vegar ekki sammála og var lögð áherslu á það af hálfu FÖ að ljósleiðarakerfið yrði að miðla sjónvarpi, síma og interneti. Markmiðið var sama verð, sömu gæði og sama þjónusta einsog best gerðist á hverjum tíma á höfuðborgarsvæðinu. Þá var miðað við þjónustuframboð Gagnaveitu Reykjavíkur og þeirra fyrirtækja sem bjóða þjónustu sína í gegnum kerfi Gagnaveitunnar.
Í desember 2008 og janúar 2009 skoðaði Ingólfur ítarlega hvaða endabúnaður væri hentugur í verkefnið og eins hvaða gerð ljósleiðara skyldi nota í heimtaugar. Hvoru tveggja varð að standast kröfur Fjarska um gæði. Fjarski gerði kröfu um að endabúnaður væri af félli undir industrial ethernet staðal en aðalmunurinn á hefðbundnum ethernetbúnaði og industrial ethernet búnaði er sá að gerðar eru mun strangari kröfur til íhluta sem notaðir eru. Búnaðurinn þarf að þola meiri hita, kulda, raka, hristing ofl. Ingólfur fékk upplýsingar hjá starfsmönnum Fjarska um mismunandi gerðir ljósleiðara og fór síðan heim og notaði síðan netið til að afla sér upplýsinga um ljósleiðara, gerð og uppbyggingu. Eftir nokkurra mánaða vinnu og samskipti við ýmis fyrirtæki gerði Ingólfur tillögu um val á ljósleiðarastreng frá kínverska fyrirtækinu ZTT og endabúnað frá kóreanska fyrirtækinu Korenix sem hann taldi henta verkefninu. Eftir að þeir Guðmundur, tæknirekstrarstjóri Fjarska, höfðu farið yfir verð, búnað og ofl. varð niðurstaðan sú að mat Guðmundar var að valinn yrði endabúnaður og ljósleiðarastrengur frá þýska fyrirtækinu Nexans. Nexans sendi Fjarska tvær stýrikerfisuppfærslur fyrir endabúnaðinn sem lagaði vandræði vegna móttöku á sjónvarpssendingum. Eftir uppfærslurnar og fínstillingar á endabúnaðinum þá hefur hann reynst mjög vel eftir byrjunarörðugleika sem alltaf má búast við í kerfum sem þessum.
Eitt af því sem Ingólfur kannaði var hvort nota ætti brynvarinn ljósleiðarastreng sem plægður væri beint í jörðina eða hvort að hentugra væri að plægja fyrst ídráttarrör og síðan blása streng á eftir í rörið. Þegar efniskostnaður var borinn saman kom í ljós að það var næstum jafndýrt að setja niður rör og streng í stað þess að setja brynvarinn streng beint í jörð. Niðurstaðan var sú að setja rör og draga síðan ljósleiðarastreng í á eftir. Ingólfur skoðaði rækilega kosti og galla beggja aðferðanna og niðurstaða hans var sú að skynsamlegra væri að nota rör og blása/draga ljósleiðara í rörið.
Þann 25. maí 2009 fóru Ingólfur og Knútur á fund bæjarráðs Hornafjarðar þar sem þeir útskýrðu væntanlegt ljósleiðaraverkefni í Öræfum. Á þeim fundi lagði Ingólfur fram minnisblað um nethraða til að freista þess að fá stuðning bæjarráðs við verkefnið. Ástæða þessa fundar var að FÖ hafði óskað þess við sveitarstjórnina að bæjarsjóður greiddi fyrir ídráttarrör og ljósleiðara í heimtaugar í Öræfanetinu. Að lokum fór svo að samþykkt var að bæjarsjóður legði fram allt að 7 milljónir króna til kaupa á ljósleiðarastreng frá Nexans og ídráttarrörum frá Seti á Selfossi.
Kostnaður hvers notanda varð 500 þúsund krónur með VSK. Inni í þeirri tölu var endabúnaður og gröftur fyrir heimtaug. Endabúnaðurinn samanstóð af stálboxi, netskipti (á ensku switch), hleðslutæki og tveimur rafhlöðum. Kostnaður við jarðvegsvinnu vegna heimtauga var misjafn en ákveðið var að meðlimir FÖ greiddu sama gjald sem síðan var jafnað út til að gæta janfræðis.
Heldur þótti mikið lagt á íbúa Öræfa að greiða 500 þúsund krónur og því vaknaði sú spurning hvort hægt væri að sækja um styrk til verkefnisins. Það varð úr að þess var freistað að sækja um fjárveitingu til Fjárlaganefndar Alþingis. Fyrst var sent bréf með erindinu sem síðan var fylgt eftir með fundi þar sem Knútur og Ingólfur hittu hluta Fjárlaganefndar og útskýrðu verkefnið og mikilvægi þess fyrir íbúa Öræfa. Á fundinum varð fljótlega ljóst að lítill skilningur var á þessu mikilvæga verkefni. Vísað var m.a. til þess að ríkið í gegnum Fjarskiptasjóð væri að koma „háhraðatengingu“ (allt að 2 Mbits, innskot) á í dreifbýli. Ingólfur fann óþægilega fyrir því að þingmennirnir sem fjölluðu um beiðni FÖ skildu ekki eðli verkefnsins og aldeilis ekki tæknina og þær miklu framfarir sem ljósleiðaravæðing hefur í för með sér. Þarna var því farin bónleið til búðar.
Haustið 2009 hófust jarðvegsframkvæmdir og lauk þeim í desember 2009. Þegar þeim lauk tóku við uppsetningar á endabúnaði sem lauk í maí 2010. Þá tóku við prófanir á kerfinu sem stóðu fram eftir sumri 2010. Kerfið var síðan tekið formlega í notkun 3. september 2010 í Hofgarði, félagsheimili og skóla Öræfinga. Þegar kerfið var opnað var öllum þingmönnum Suðurlandskjördæmis ásamt fulltrúm allra stærstu fjölmiðla landsins boðið að vera viðstadda. Enginn þingmaður lét sjá sig og ekki heldur fulltrúar fjölmiðla.
Til að kynna verkefnið var almannatengslafyrirtækið Athygli fengið til að vinna blað þar sem verkefnið var kynnt ásamt því að rætt varið íbúa og starfsmenn fyrirtækja í sveitinni. Blaðið kom út sem fylgiblað með 16. tölublaði Bændablaðsins 2010 sem gefið var út 23. september 2010.
Það varð snemma ljóst að ekki var nóg að sett væri á stofn ljósleiðarakerfi úti í sveit ef ekki væri hægt að fá þjónustu við kerfið, internetsamband, sjónvarpstengingu og símaþjónustu. Þar sem markmiðið var að notendur hefðu aðgang að áðurgreindum þremur þjónustum þá komu aðeins tvö fyrirtæki til greina sem gátu boðið síma, sjónvarp og internet en það voru Síminn og Vodafone. Ingólfur hafði símasamband við bæði fyrirtækin þar sem óskað var eftir fundi. Eftir að hafa rætt við starfsmenn fyrirtækjasviða Símans og Vodafone send hann tölvupósta til viðkomandi starfsmanna Símans og Vodafone þar sem óskað var eftir fundi til að ræða málin. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fékkst ekki fundur með fulltrúm Símans. Hins vegar var auðsótt mál að fá fund með fyrirtækjasviði Vodafone og var fyrsti fundur Knúts og Ingólfs með starfsmönnum Vodafone 20. nóvember 2008. Viðstödd fundinn fyrir hönd Vodafone voru Dagný Guðmundsdóttir og Sigurbjörn Eiríksson.
Fundirnir hjá Vodafone áttu eftir að vera margir og þá ekki síst þegar leið á árið 2009 og fyrri hluta árs 2010. Vodafone byrjaði að þjónusta Öræfanetið með skertu vöruframboði sem lýsti sér i því ekki var hægt að veita fullt þjónustuframboð á sjónvarpsrásum þar sem bandbreidd Vodafone inn á Öræfanetið var ekki nema 100 Mbits til að byrja með. Þetta samband þurfti Vodafone að leigja af Mílu, frá Hvolsvelli og að Fagurhólsmýri. Seinni hluta árs 2010 fékk síðan Vodafone einn af átta þráðum Nato ljósleiðarans sem félagið hafði fengið skv. útboði en boðnir voru út tveir þræðir Nato ljósleiðarans sem liggur hringinn í kringum landið. Stuttu eftir að Vodafone fékk aðgang að einum þræði Nato leiðarans þá var hægt að bjóða fullt þjónustuframboð á Öræfanetinu, eins og stefnt var að.
Það er rétt að nefna að ef umræddir tveir þræðir Nato leiðarans hefðu ekki verið boðnir út í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra og síðan fylgt eftir af Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra hefði samkeppni í gagnaflutningum á stórum landssvæðum utan höfuðborgarsvæðisins, ekki orðið að veruleika. Núna er raunhæfur möguleiki fyrir sveitarfélög að ráðast i lagningu ljósleiðara og fá efni veitt inn á kerfið sem áður var erfitt eða illmögulegt vegna þess hversu hátt gagnaflutningar í dreifbýli voru verðlagðir.
Í samningum FÖ og Fjarska var gert ráð fyrir að Fjarski væri eigandi kerfisins og fengi í sinn hlut áskriftargjöld fra notendum, 2.390 krónur á mánuði auk þess sem efnisveitur greiddu Fjarska fyrir aðgang að Öræfanetinu. Þrátt fyrir eignarhald Fjarska þá voru takmarkanir á eignarhaldinu að Öræfanetinu. Fyrirtækið gat ekki veðsett, leigt eða selt kerfið án heimildar frá FÖ. Auk þess var kveðið á um að ef Fjarski yrði gjaldþrota, fyrirtækið selt eða meiriháttar breytingar gerðar á rekstri þess myndi FÖ eignast Öræfanetið. Þessi skilyrði af hálfu FÖ ber að skoða í ljósi þess að meðlimir FÖ greiddu samtals 24 milljónir króna í kerfið og Sveitarfélagið Hornafjörður greiddi 7 milljónir króna. Að auki lögðu meðlimir FÖ til fæði og gistingu fyrir starfsmenn Fjarska og Leiðarans sem sáu um tengivinnu. Því hefði verið ósanngjarnt ef Fjarski hefði fengið umrædd verðmæti afhent án skilyrða.
Þessi ákvæði voru líka til þess fallin að ef kerfið væri selt hefðu meðlimir FÖ ekkert um það segja ef nýr eigandi kysi t.d. að hækka áskriftargjöld án samráðs við meðlimi FÖ. Þess vegna m.a. er mikilvægt að sveitarfélög hafi eignarhald ljósleiðarakerfa í sveitarfélaginu á hendi sinni þó þau geti verið í góðu samstarfi við fjarskiptafélög um rekstur kerfisins.
Í byrjun árs 2010 var sú ákvörðun tekin af stjórn Fjarska að fyrirtækið hyrfi af samkeppnismarkaði og sinnti eingöngu fjarskiptaþörfum orkugeirans. Stofnað var nýtt fyrirtæki seint á árinu 2011, Orkufjarskipti ehf., þar sem sameinuðust hluti af netkerfi Fjarska og fjarskiptahluti Landsnets. Vegna þessara breytinga í rekstri Fjarska vildi fyrirtækið ekki lengur reka Öræfanetið. Því gerðist það sem Öræfingar áttu ekki von, amk. ekki svona fljótt, að Fjarskiptafélag Öræfinga fékk formlega afhent eignarhald Öræfanetsins í nóvember 2011.
Knútur og Ingólfur höfðu rætt við Hjalta Þór, bæjarstjóra Hornafjarðar, hvort ekki væri rétt að stofna Gagnaveitu Hornafjarðar, að hætti Reykvíkinga og Skagfirðinga, með það að markmiði að halda áfram með ljósleiðaravæðingu alls sveitarfélagsins.
Fjarskiptafélag Öræfinga var stofnað sem áhugamannafélag, ekki sem rekstrarfélag um fjarskipti. Eftir að FÖ fékk Öræfanetið afhent var samþykkt á almennum félagsfundi FÖ í desember 2011 að veita stjórn FÖ heimild til að framselja kerfið í hendur Sveitarfélaginu Hornafirði. Sveitarfélagið hefur samþykkt að veita Öræfanetinu viðtöku. Sveitarfélagið mun síðan semja við Vodafone um að þjónusta endabúnað kerfisins. Hins vegar mun sveitarfélagið taka á sig ábyrgð á viðhaldi stofnstrengsins og heimtaugum. Vonandi verður Öræfanetið fyrsti hlutinn í Gagnaveitu Hornafjarðar.